Fréttir 2013

 

27. september 2013
Strikamerki tekin upp
Frá 1. október 2013 tekur Sápan upp strikamerkingar á öllum sápum. Merkin verða aftan á öllum sápum sem við sendum frá okkur. Frá sama tíma verða líka tekin upp lotunúmerakerfi í framleiðslunni og verða slík númer á sama merkimiða og strikamerkin.
Þá verður einnig farið að pakka 25 gramma sápum í búnt sem innihalda 12 stk. og 100 gramma sápum í búnt með 6 stk. Sápur í þæfðri ull verða áfram afgreiddar í pokum með 6 stk.
Þetta þýðir ekki að það verði að panta heil búnt. Við munum áfram afgreiða nákvæmlega eins mörg stykki og óskað er eftir. Þetta er gert þar sem pantanir eru flestar orðnar svo stórar að gera má ráð fyrir hagræðingu bæði í afgreiðslu frá okkur og hjá verslunum í móttöku og talningu.
Sendum okkar bestu þakkir öllum sem hafa unnið að því að auka sölu á sápunum jafnt og þétt allt frá því að framleiðsla hófst árið 2009.

  18. maí 2013
Tax Free
Erlendir ferðamenn geta nú verslað hjá okkur "Tax Free" þ.e. þeir geta fengið með sér blöð sem má framvísa í FLE við brottför frá Íslandi og fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af vörum úr búðinni okkar.
 

18. maí 2013
Vörum fjölgar í versluninni
Búið er að semja við handverksfólk sem mun hafa vörur sínar til sölu hjá okkur og mun vöruúrval aukast talsvert eftir því sem líður á sumarið. 

 

20. apríl 2013
Sápan tekur á móti hópum í sápugerðina
Nú stendur ferðamannahópum til boða að koma við og skoða sápugerðina auk þess að kaupa hjá okkur í lítilli mynjagripaverslun á staðnum. - Þ.e. að Brekkustíg 41, 260 Reykjanesbæ. Beint á móti Nettó.
Bílastæði á sama plani og Sýslumaðurinn. Smell passar fyrir stóra rútu beint fyrir framan dyrnar hjá okkur.
Gott er að fá að vita með örlitlum fyrirvara ef hópur ætlar að koma við í sápugerðinni.
Staðsetningin er mjög góð fyrir rútur að koma við þegar ekið er af Reykjanesbraut og beina leið í gegnum Njarðvík og Keflavík. - Það væri þá líka mjög hentugt að skoða kertagerð, glerblástur og Duushúsin þar sem er bátasafn og Listasafn Reykjanesbæjar. Á sömu leið eru einnig sérverslun með handverk og sérstök mynjagripaverslun. Allt á sömu beinu leiðinni.
Nú eru allir velkomnir í sápugerðina. Reiknað er með að verslunin okkar verði nefnd Soap viking eins og vefurinn okkar http://www.soapviking.com/

 

16. mars 2013
Brekkustígur 41, Reykjanesbæ
Hér til hliðar má sjá bílastæðið við núverandi húsnæði Sápunnar. Enn sem komið er hefur aðeins verið sett merking í rúðuna á útihurðinni. Í bakgrunninn má sjá yfir til stórmarkaðarins Nettó. Við hliðina á Sápunni er saumastofan H-nál. Beint á móti er Sýslumaðurinn. Netaverkstæði Suðurnesja er á allri annari hæðinni. Smellið á myndina til að stækka hana.
 

 

13. mars 2013
Starfsleyfi Sápunnar
Sápan hefur nú fengið starfsleyfi fyrir Brekkustíg 41 í Reykjanesbæ sem hér má sjá. Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana. Framleiðsla hefst núþegar í nýju húsnæði en síðan er áætlað að opna smásöluverslun í byrjun apríl sem er í sama húsnæði. Þar verður lögð áhersla á að geta tekið á móti hópum ferðamanna og verða allar ferðaskrifstofur í landinu látnar vita af þessum nýja stoppustað fyrir hópa sem fara um Reykjanesið.
 

 

6. mars 2013
Starfsemi Sápunnar flutt
Það má segja að loks sé Sápan komin í hús til framtíðar. Öll starfsemi hefur nú verið flutt að Brekkustíg 41. Þetta er á neðri hæð í húsnæði Netaverkstæðis Suðurnesja og gengið inn af sama bílastæði og Sýslumannsembættið notar. Segja má líka að við séum gegnt Nettó sem er hinumegin við götuna.
Úttekt á húsnæðinu fór fram á vegum HES í gær og er formlegt starfsleyfi væntanlegt í póstinum næstu daga.